Egill Óskarsson

Nýttu þínar sterkustu hliðar

Fyrir níu árum síðan hóf ég störf á leikskólanum Fögrubrekku í Kópavogi. Ég var 22 ára gamall og hafði eins og gengur og gerist brasað við hitt og þetta í gegnum tíðina; unnið á afgreiðslukassa, selt raftæki, borið út póst, gengið í skóla og jú, ég hafði unnið áður á leikskóla í stuttan tíma. Þegar ég gekk í fyrsta skipti inn á Fögrubrekku var það ansi fjarri huga mér að níu árum síðar yrði ég ennþá starfandi þar og orðin leikskólakennari og deildarstjóri.

Þegar ég gekk í fyrsta skipti inn á Fögrubrekku var það ansi fjarri huga mér að níu árum síðar yrði ég ennþá starfandi þar

Ég hafði aldrei hugleitt það að læra að verða leikskólakennari, eða yfir höfuð að leggja fyrir mig neitt sem tengdist kennslu og umönnun barna. Ég leit fyrst og fremst á leikskólann sem skemmtilegan vinnustað á meðan að ég væri að átta mig á því hvenær ég yrði eiginlega stór og hvað ég vildi verða þegar það gerðist. En smátt og smátt fór ég að átta mig á því hvað leikskólinn er spennandi vettvangur og hversu mikil tækifæri hann gefur einstaklingum til þess að nýta sterkar hliðar sínar í starfi.

Það er sama hvort maður hefur áhuga á jarðfræði, tónlist, prjónaskap, ljósmyndun eða bara hverju sem er, það er hægt að nýta þann áhuga og þá þekkingu sem maður hefur í starfinu með börnunum. Möguleikarnir til þess afmarkast í raun aðallega af hugmyndaflugi manns sjálfs og barnanna.

Starfið er  líka gríðarlega fjölbreytt. Viðfangsefnin eru af öllum toga. Þegar ég hóf störf á Fögrubrekku voru elstu börnin nýbúin að smíða flugvél úr trjágrein og ýmsum efnivið sem þau höfðu fundið. Við höfum fengið fiska og önnur nýveidd sjávardýr til þess að skoða með áhugasömum börnum. Við förum og skoðum söfn, gefum öndum brauð og förum á tónleika. Og þegar maður umgengst stóran hóp af börnum á hverjum degi er sífellt eitthvað nýtt að koma upp í samskiptum bæði á milli barna og fullorðinna og á milli barnanna sjálfra.

Samskiptin við börnin eru auðvitað eitt það allra skemmtilegasta við starf leikskólakennara. Leikskólabörn eru fróðleiksfús og sífellt að kanna og prófa heiminn í kringum sig. Þau kanna heiminn í rauninni með tilraunum eins og vísindamenn. Og gleðin sem fylgir því að fylgjast með barni sem áttar sig á einhverju nýju og skemmtilegu eða uppgötvar einhverja áður óþekkta hæfni er sennilega með því magnaðasta sem hægt er að upplifa í starfi.

Fagheimurinn í leikskólanum er líka spennandi. Uppeldis- og menntunarfræði eru greinar í sífelldri þróun og inn í þær spinnast raun-, hug- og félagsvísindi. Faglegt starf á íslenskum leikskólum er almennt til fyrirmyndar og var það eitt af því sem hreif mig mest þegar ég hóf störf á leikskóla fyrir níu árum. Þá var t.d. þróunarverkefni um tónlist í leikskólum nýlokið þar sem ég starfaði og vinna við annað, þar sem fimm ára börn saumuðu bútasaumsteppi og kjól í fullri stærð, í fullum gangi.

Mér finnst ég mjög heppinn að hafa ratað inn á leikskóla fyrir níu árum síðan. Ég nýt þess að verja hverjum virkum degi með hópi af börnum og að læra og leika mér með þeim. Að geta nýtt mér mínar sterku hliðar í fjölbreyttu og áhugaverðu starfi. Starfið getur auðvitað verið krefjandi líka en það jákvæða og gefandi vegur miklu þyngra þegar upp er staðið. Ég myndi hiklaust mæla með leikskólastörfum og leikskólakennaranáminu.

Egill Óskarsson leikskólakennari og deildarstjóri á leikskólanum Fögrubrekku

0 athugasemdir

Ritaðu athugasemd

Viltu taka þátt í umræðunum?
Segðu þína skoðun!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *