Framtíðarstarfið hlaut Orðsporið 2017

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Orðsporið 2017 – hvatningarverðlaun í leikskólanum Hofi á Degi leikskólans sem haldinn var hátíðlegur víða um land í dag. Það var Framtíðarstarfið – átaksverkefni um eflingu leikskólastigsins sem hlaut verðlaunin en að því standa Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Framtíðarstarfinu var hleypt af stokkunum árið 2014 og er markmið þess að efla jákvæða ímynd leikskólans og fjölga þeim sem leggja fyrir sig nám í leikskólakennarafræðum. Verkefnið hefur borið árangur því fjöldatölur háskólanna sýna að aðsókn í námið hefur aukist á því tímabili sem átakið hefur staðið.

Í umsögn valnefndar segir: „Allir geta verið sammála um að mikilvægt er að efla leikskólastigið enda hagsmunamál að hafa vel menntaða starfsmenn í leikskólum landsins. Það mun án efa skila sér í auknum gæðum í skólastarfinu og fagmennsku og um leið styrkja leikskóla sem áhugaverða vinnustaði. Því er átaksverkefni á borð við Framtíðarstarfið afar mikilvægt og til þess fallið að efla orðspor leikskólakennarastarfsins og breyta afstöðu ungs fólks til starfsins.“

Dagur leikskólans var haldinn í tíunda sinn í dag en markmið dagsins er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og beina athygli fólks að því metnaðarfulla starfi sem innt er af hendi í leikskólum landsins.

Fyrst birt á vef Háskóla Íslands

0 athugasemdir

Ritaðu athugasemd

Viltu taka þátt í umræðunum?
Segðu þína skoðun!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *