Framhaldsskólanemar vanmátu laun leikskólakennara
Nemendur í sjö framhaldsskólum á landinu héldu að meðallaun leikskólakennara væru talsvert lægri en þau í raun eru. Vefkönnun sem lögð var fyrir framhaldsskólanemendur á lokaári um þekkingu þeirra á menntun og starfi leikskólakennara, gefur til kynna að að flestir nemendur vanmeti laun leikskólakennara. Aðeins 10% svarenda höfðu raunhæfar hugmyndir um laun leikskólakennara.
Menntavísindastofnun og Menntavísindasvið Háskóla Íslands framkvæmdi könnunina fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið á vormánuðum í fyrra.
Aðeins 10% svarenda höfðu raunhæfar hugmyndir um laun leikskólakennara.
Nemendur voru spurðir hvað þeir teldu mánaðarlaun leikskólakennara vera há. 159 tóku þátt í könnuninni en alls svöruðu 137 spurningunni. Gefnir voru fimm svarmöguleikar. Enginn þátttakandi giskaði á hæstu tvö launaþrepin, 400.000 til 499.000 krónur á mánuði eða 500.000 kr. eða meira á mánuði.
Samkvæmt kjarakönnun starfsmannafélags Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012 voru meðalheildarlaun leikskólakennara 324 þúsund á mánuði. Samkvæmt því mætti ætla að rétt svar við þessari spurningu væri 300.000 – 399.000 kr á mánuði sem aðeins 10% þátttakendanna merktu við. Mætti því ætla að margir þátttakendur í könnuninni gerðu ráð fyrir enn lægri launum þessarar starfsstéttar en raunin er í dag.
Niðurstöðurnar gætu verið vísbending um ástæður þess að fáir nemendur á lokaári í framhaldsskólum hafi áhuga á að fara í nám í leikskólakennarafræðum.
Ritaðu athugasemd
Viltu taka þátt í umræðunum?Segðu þína skoðun!