Leið fyrir að vera smávaxinn Halli berst gegn fordómum en segist sjálfur hafa verið báðum megin borðsins. Hann geti verið fordómafullur en einnig leið hann fyrir það þegar hann var yngri að vera smávaxinn og var strítt vegna þess.

„Ég er ekki að fara vinna Eurovision“

Haraldur Freyr Gíslason segist oft hafa verið fordómafullur.

Hann er baráttumaður fram í fingurgóma hvort sem hann berst fyrir fordómalausum heimi eða bættum kjörum leikskólakennara. Haraldur Freyr Gíslason, eða Halli eins og hann er kallaður, er þó handviss um að hann vinni ekki Eurovision-keppnina en er glaður að hafa fengið tækifæri með félögum sínum í Pollapönki til að bera út boðskap sem er þeim svo mikilvægur.Viktoría Hermannsdóttir settist niður með Halla pollapönkara í Kaupmannahöfn og ræddi við hann um hvernig hann villtist inn í starf leikskólakennara, þegar hann var á barmi heimsfrægðar, og ekki síst Eurovision-ævintýrið.

Lag Pollapönkaranna, Enga fordóma, hefur vakið mikla athygli en þar syngja þeir um að allir eigi að fá að vera eins og þeir eru. Sjálfur segist Halli hafa verið báðum megin borðsins. Hann geti sjálfur verið fordómafullur og hefur líka lent í því að vera strítt því hann þótti öðruvísi að einhverju leyti. „Ég var mjög smávaxinn en ég er „fighter“ og beit á jaxlinn. Ég hafði þann eiginleika og náði þannig að verða ekki undir,“ segir hann.

„Hluti af því að gera þessi lög er að horfast í augu við eigin fordóma og láta fólk hugsa um eigin fordóma. Ég hef oft verið fordómafullur og þarf reglulega að skoða sjálfan mig og spegla mig til að skoða eigin fordóma.

Ég held, en ég veit ekki hvort það sé rétt eða ekki, en ég held að börn fæðist fordómalaus, svo gerist eitthvað á leiðinni og samfélagið smitar það af sumum fordómum og það er okkar hlutverk sem fullorðinna og foreldra að rjúfa þennan hring með því að hugsa okkar gang sjálf,“ segir Halli og fær sér sopa af kaffinu.

Grein fyrst birt á dv.is

0 athugasemdir

Ritaðu athugasemd

Viltu taka þátt í umræðunum?
Segðu þína skoðun!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *