Dyrleif skjöldal

Dagur í leikskóla

Flestir hafa þá mynd af kennslu í huganum, að kennarinn standi fyrir framan hóp barna sem sitja á stólum við borð. Bak við hann er tafla sem hann getur skrifað á eða fengið börnin, eitt af öðru, til þess. Við sem erum kominn á miðjan aldur og eldri kynntumst a.m.k. bara þess konar kennslu. Það var eftir bernskudaga okkar sem það varð algengt að börn dveldu lungann úr deginum í leikskóla eða skyldi ég segja barnaheimili eins og það var kallað í þá daga.

Ástæðan er einfaldlega sú að það er mjög erfitt að tala um hefðbundna daga í leikskólanum

Þegar ég velti því fyrir mér hvernig hefðbundinn dagur er í leikskólanum þá rekur mig í vörðurnar. Ástæðan er einfaldlega sú að það er mjög erfitt að tala um hefðbundna daga í leikskólanum. Þeir ráðast einfaldlega af þeim sem eru mættir, skipulaginu og staðháttum ss. veðri og allt þetta getur breyst á augabragði.

Hvernig er svo þessum börnum kennt? Hversvegna er þetta kallað skóli þegar „allir“ vita að góðu konurnar (fólkið, á einstaka stað) sem passa börnin láta þau bara leika sér daginn út og inn? Nú er það svo að leikur barna hefur verið mikið rannsakaður og sýnt hefur verið fram á að í gegnum leik læra börn. Þau læra lika af sér eldri/færari og með eftiröpun og endurtekningu. Skref fyrir skref þróast leikurinn og ef við gefum þeim færi á því þá verður til vitneskja hjá þeim, sem sagt nám.

Í dag er ég mætt í vinnuna mína skömmu fyrir kl. 8 og ég byrja daginn á því að taka á móti nemendum og foreldrum þeirra í forstofunni þegar þau koma. Ég býð góðan dag, alla daga! Ég spjalla lítilega við foreldra og börn á meðan börnin taka af sér og kveðja foreldri sitt. Stundum þarf ég að taka á móti skilaboðum um nýafstaðin veikindi ellegar önnur leiðindi sem sett geta mark sitt á daginn eða taka þarf tillit til. Ef það er eitthvað alvarlegt þá staldrar foreldrið við hjá skólastjóranum og léttir á hjarta sínu. Langflest börnin trítla kát og glöð inn og finna sér verkefni til að dunda við fram að morgunmat en það kemur fyrir að ég lána þeim fangið mitt til að kúra sig í, á meðan þau komast yfir þreytu eða leiðindin sem hrjá þau. Stundum spjöllum við en stundum þurfa þau bara frið til að jafna sig og láta strjúka yfir hár sitt og bak eða halda utan um sig.

Matmálstímar, þar með talinn morgunmatur, er t.d. kennsla í því að beita amboðum (hnífapörum). Eftir því sem aldur og þroski segir til um þá læra börnin smátt og smátt að skammta sér sjálf. Á meðan á máltíðum stendur byggjum við upp þekkingu á matartegundum, næringarefnum og hinum ýmsu bragðtegundum sem maturinn okkar býður uppá auk þess sem við nýtum tækifærin sem gefast til íslenskukennslu og borðsiðanáms. (Hlutur endurtekningar í námi.) Jú það er ósköp svipað og það var hér í denn þegar fjölskyldan borðaði saman en gerist það á heimilum nú til dags daglega?

Í dag er útiskóli. Þá fer ég með hópinn minn (elstu börnin) ásamt kennara 1. og 2. bekkjar grunnskólans á staðnum út. (Samvinna skólastiga) Ekki það að við förum ekki út á hverjum degi en útiskólinn fæst við „stýrðara“ nám úti, náttúruna, staðhætti og lýðræði vafið inn í ábyrgð einstaklinganna og leiki. Áhugi barnsins er verkefni dagsins. Á Svalbarðseyri erum við svo heppin að hafa eina bestu fjöru í Eyjafirði í 5 mínútna göngufæri og þangað er ferðinni heitið í dag.

Við höfum verið að vinna með áttirnar og nú ætlum við að kanna flóð og fjöru. Þegar við komum í fjöruna er sjórinn mitt á milli þess að hann er hæstur og lægstur. Hvort er nú að fjara út eða flæða að? Það er spurning dagsins. Eftir ýmsar bollaleggingar ákveða þau að búa til merki þar sem sjórinn er núna. Þau finna sér grein sem þau setja niður, upp á endann svo hún standi nú uppúr ef það er að flæða að og svo skoðum við hvað annað finnst í fjörunni sem merkilegt er að skoða nánar.

Þar er alltaf eitthvaða að skoða. Skeljar, kuðungar, glerbrot og það sem við fullorðna fólkið köllum rusl sem reynist oft í augum barnsins falinn fjársjóður sem er þess virði að skoða gaumgæfilega og spyrja ótal spurninga út í. Eitt sinn fundum við dauðan sel sem varð efni í mikinn lærdóm um seli. Hvernig syndir hann? Hvernig eru tennurnar í honum? Eru veiðihárin stíf? Hvað heita „fæturnir/hendurnar“? Hvað skyldu þeir vera þungir? og svo framvegis. Þroski og áhugi barnanna ræður því hve djúpt er kafað.

Nesti er nauðsynlegt þegar farið er í slíkar ferðir og þá þarf að finna stað sem hægt er að nærast á. Hvar er skjól að finna? Hvernig finnum við það? Ef glösin gleymast, hvernig drekkum við þá kakóið? Já við leitum lausna í náminu okkar. Áður en heim er farið er kannað hvort greinin sé á þurru eða hvort hún sé komin á kaf.

Þegar heim í skóla er komið eftir 2 tíma útiveru er gott að fá hádegismat í kroppinn og slaka svo á yfir góðri sögu og jafnvel taka lagið. Frjálsar stundir við hlutverka- eða byggingaleik, föndur, teikningu eða málun er þjálfun í sköpun, samskiptum, samhæfingu huga og handar sem eykur færni barnsins á öllum sviðum mannlegs þroska. Það er hluti af því að verða læs á umhverfi sitt og geta tekist á við sjálfan sig. Hlutverk kennarans er að hrósa þegar vel tekst til, grípa inn í þegar þau ráða ekki við málin og skoða hvernig þau læra. Leggja nám þeirra upp þannig að þau hafi ánægju af að takast á við það og geti verið stolt af útkomunni.

Meiri útivera og kaffitími einkenna seinni part dagsins. Í útiverunni fá þau pláss til að hreyfa sig. Þau hlaupa, stökkva, veltast um og klifra, þjálfa líkama sinn til að takast á við hóla og hæðir, snjó og klaka, sand og mold, rigningu og sól. Leikur þeirra, og þar með nám, er þjálfun í samskiptum sem leggur grunn að félagslegri færni þeirra.

Já það má segja að hver dagur sé sérstakur í leikskóla en sammerkt eiga þeir að allir eru þeir góðir dagar – allan daginn.

Dilla (Dýrleif Skjóldal) er leikskólakennari og sundþjálfari.

0 athugasemdir

Ritaðu athugasemd

Viltu taka þátt í umræðunum?
Segðu þína skoðun!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *