Meiri eftirspurn eftir sumum börnum

Ef markaðslögmál fá að ráða í skólakerfinu er það hentugra börnum sem falla vel að „norminu“ en þeim sem búa við einhvers konar fötlun eða frávik. Slík lögmál henta líka milli- og efri-stéttar foreldrum betur en öðrum foreldrum og slíkir foreldrar teljast „verðmætari“ en aðrir til að skapa skólanum jákvæða ímynd. Þegar markaðslögmál ráða í skólastarfi er hugmyndinni um að menntun eigi að vera almannagæði ýtt til hliðar vegna einkahagsmuna.

Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi dr. Berglindar Rósar Magnúsdóttur, lektors við Háskóla Íslands, sem hún flutti á ráðstefnu fyrir starfsfólk leikskóla Reykjavíkurborgar í gærmorgun. Erindi Berglindar bar heitið Gæði og jafnrétti í skólastarfi á tímum markaðsvæðingar.

Berglind hefur stundað rannsóknir á þessu sviði í tengslum við doktorsnám sitt við Cambridge-háskóla á Englandi. Hún skoðaði einkum bandarískt og breskt skólastarf, en segir að margt megi heimfæra á íslenskar aðstæður, en fáar rannsóknir hafi verið gerðar á þessu sviði hér.

Þegar auðmagn foreldra skapar börnum forskot

„Grundvallarhugmyndin með markaðsvæðingu skólanna er að þeir séu eins og sjoppur sem geti farið á hausinn ef ekki verður nægileg eftirspurn. Vandinn við þessa hugsun er sá að skólar hafa margþættu hlutverki að gegna í nærsamfélagi barna og velta má því fyrir sér hvort það sé ákjósanlegt að börn og skólaganga þeirra sé háð markaðslögmálum og því hversu mikinn tíma eða menningarlegt og fjárhagslegt auðmagn foreldri hefur til að skapa því forskot á menntamarkaði allt frá upphafi leikskólagöngu, eins og víða er erlendis,“ segir Berglind.

„Í staðinn fyrir ábyrgð stjórnvalda og samfélags að skapa faglegt starf á forsendum barnsins er mat á gæðum skóla sett í hendur foreldra, markaðarins og matsfyrirtækja. Hugmyndir um gæði tiltekinna skóla mótast oft af því hverjir það eru sem sækja skólana, af bakgrunni nemendanna frekar en hversu faglega og vel er unnið að margþættu hlutverki skóla gagnvart ólíkum hópum nemenda. Þetta þarf ekkert alltaf að fara saman,“ segir Berglind.

„Hlutverk skóla þrengist og snýst um að vinna að fyrirfram gefinni útkomu á sem stystum tíma fyrir sem minnsta fjármuni, rétt eins og framleiðsla á hamborgurum. Áherslan færist frekar á spurningar eins og: Hvað virkar til að uppfylla ákveðna staða? í staðinn fyrir að spyrja sig hvernig mennta eigi gagnrýninn borgara. Skólinn fer að snúast um að einstaklingurinn öðlist tiltekna atvinnuhæfni til að geta verið árangursríkur einstaklingur í markaðshagkerfi.“

Einstaklingshagsmunir ofar heildarhagsmunum

Er þetta svo slæmt? „Það eru skiptar skoðanir um það. En þegar skólar fara að stjórnast af framboði og eftirspurn skapast hætta á að einstaklingshagsmunir taki yfir heildarhagsmuni. Að fólk sem hefur sterka stöðu í samfélaginu getur nýtt sér skólakerfið í eigin þágu umfram aðra og að þeir foreldrar, sem þykja verðmætir fyrir ímynd skólans, geti beitt sér á ýmsan hátt til að fá fram forréttindi fyrir eigin börn,“ segir Berglind.

„Helstu niðurstöður rannsókna á þessu sviði eru að óheft markaðsvæðing í skólakerfum til lengri tíma skapi meiri menningar- og stéttarmun í skólum. Það verða til fleiri „elítu- og gettóskólar“ með tilheyrandi brennimerkingum og misrétti gagnvart þeim nemendum sem sækja brennimerktu skólana. Þegar slík aðgreining er komin á er mjög erfitt að snúa til baka og reyna að brjóta það upp.“

Minni eftirspurn eftir börnum sem víkja frá norminu

Berglind segir þekkt að þar sem markaðslögmál ráði för í skólum sé einfaldlega meiri eftirspurn eftir sumum börnum og foreldrum en öðrum. „Það verður eftirspurn eftir hópum sem hafa komið sér vel fyrir í samfélaginu og minni eftirspurn eftir börnum og foreldrum sem talin eru víkja frá norminu eða þeim viðmiðum sem skólarnir eru látnir keppast við að ná.“

Samkvæmt rannsókn Berglindar sem hún vann í bandarísku borgarsamfélagi virðist vera að það þurfi tiltekinn lágmarksfjölda af milli- og efristéttarforeldrum til að skapa eftirspurn og tiltrú á gæði skóla. Þeir móta orðspor skólanna og verða talsmenn ákveðinna menntavörumerkja,“ segir Berglind.

Hún segir að auðvelt sé að innleiða þessa hugsun þar sem skólar eru reknir af hinu opinbera, eins og hér á landi. „Til dæmis með því að skólar marki sér í auknum mæli sterka sérstöðu sem gæti verið nokkurs konar vörumerki eða ímynd.“

Nálgast má rannsókn Dr. Berglindar á vef academia.edu

Birt á mbl.is 06.02.2014 Höfundur: Anna Lilja Þórisdóttir

 

Framhaldsskólanemar vanmátu laun leikskólakennara

Nemendur í sjö framhaldsskólum á landinu héldu að meðallaun leikskólakennara væru talsvert lægri en þau í raun eru. Vefkönnun sem lögð var fyrir framhaldsskólanemendur á lokaári um þekkingu þeirra á menntun og starfi leikskólakennara, gefur til kynna að að flestir nemendur vanmeti laun leikskólakennara. Aðeins 10% svarenda höfðu raunhæfar hugmyndir um laun leikskólakennara.

Menntavísindastofnun og Menntavísindasvið Háskóla Íslands framkvæmdi könnunina fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið á vormánuðum í fyrra.

Aðeins 10% svarenda höfðu raunhæfar hugmyndir um laun leikskólakennara.

Nemendur voru spurðir hvað þeir teldu mánaðarlaun leikskólakennara vera há. 159 tóku þátt í könnuninni en alls svöruðu 137 spurningunni. Gefnir voru fimm svarmöguleikar. Enginn þátttakandi giskaði á hæstu tvö launaþrepin, 400.000 til 499.000 krónur á mánuði eða 500.000 kr. eða meira á mánuði.Skjermbilde 2014-03-28 kl. 12.55.52 (2)

Samkvæmt kjarakönnun starfsmannafélags Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012 voru meðalheildarlaun leikskólakennara 324 þúsund á mánuði. Samkvæmt því mætti ætla að rétt svar við þessari spurningu væri 300.000 – 399.000 kr á mánuði sem aðeins 10% þátttakendanna merktu við. Mætti því ætla að margir þátttakendur í könnuninni gerðu ráð fyrir enn lægri launum þessarar starfsstéttar en raunin er í dag.

Niðurstöðurnar gætu verið vísbending um ástæður þess að fáir nemendur á lokaári í framhaldsskólum hafi áhuga á að fara í nám í leikskólakennarafræðum.