Hafðu áhrif

Jóhanna Einarsdóttir skrifar:

Gæði skólastarfs og menntun barna er undirstaða velferðar hverrar þjóðar. Framúrskarandi skólastarf byggir á mörgum samverkandi þáttum þar sem kennarar, stjórnmálamenn og foreldrar eru mikilvægir áhrifavaldar. Kennarastarfið hefur breyst gífurlega á undanförnum áratugum. Kennarar fyrri kynslóða gátu gert ráð fyrir að sú þekking, hæfni og færni sem þeir miðluðu gætu nemendur nýtt sér þegar út í lífið kæmi. Kennarar dagsins í dag standa í öðrum sporum. Þeir þurfa að undirbúa nemendur sína fyrir víðtækari félags- og efnahagslegar breytingar en nokkru sinni fyrr, fyrir störf sem ekki þekkjast nú, til að nota tækni sem ekki hefur verið fundin upp og til að takast á við vandamál sem nú eru nánast óþekkt.

Í nýrri skýrslu OECD um kennaramenntun er fjallað um þróun kennarastarfsins. Þar er vakin athygli á því að kennaranám þurfi að taka mið af þróun samfélags þar sem líf og aðstæður barna taka örum breytingum. Kennarar dagsins í dag þurfa að takast á við fjölbreytt viðfangsefni í starfi sínu og vinna með margbreytilega nemendahópa. Til að undirbúa nemendur sína fyrir líf og störf í samfélagi framtíðarinnar þurfa þeir að gera meira en að miðla þekkingu í ákveðnum greinum. Þeir þurfa að leggja rækt við sköpunarkraft nemenda og hvetja þá til að hugsa á gagnrýninn hátt. Þeir þurfa að styðja við nemendur til að vinna saman við að leysa vanda og taka sameiginlegar ákvarðanir. Þeir þurfa að vera vakandi fyrir nýrri tækni og stuðla að hæfni nemenda til að nýta sér möguleika tækninýjunga en um leið hvetja þá til gagnrýnnar afstöðu gagnvart þeim.

Í skýrslu OECD er því haldið fram að menntakerfi geti aldrei orðið betri en kennararnir sem í þvi starfa. Leitað er svara við því hvaða þættir það eru sem einkenna góða kennara og farið er yfir rannsóknir á því efni. Þekking á námsgreininni sem kenna skal er einn þeirra þátta sem nefndir eru sem mikilvægir. Menntunarfræðileg þekking er annar þáttur, en þar er m.a. átt við þekkingu á kennsluaðferðum og leiðum til að skipuleggja og meta nám og kennslu. Jafnframt þurfa þeir að hafa kunnáttu og metnað til að hvetja nemendur til dáða og mæta þörfum, áhuga og þroska hvers og eins. Auk þessa eru nefnd önnur sérkenni sem einkenna góða kennara, eins og eldmóður, ástríða fyrir viðfangsefninu og virðing fyrir nemendum.

Átakinu „Hafðu áhrif“, sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir, er ætlað að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á einstaklinga og samfélagið. Jafnframt að vekja athygli á góðum kennurum og þeim þáttum sem fólk telur einkenna góða kennara. Þjóðþekktir einstaklingar hafa lagt átakinu lið og í stuttum myndböndum segja þeir frá þeim kennurum sem hafa haft áhrif á líf þeirra og störf. Með þessu átaki viljum við kalla fram það jákvæða við kennarastarfið og gefa almenningi kost á að vekja athygli á eftirminnilegum kennurum. Á heimasíðu átaksins „Hafðu áhrif“  gefst fólki kostur á að tilnefna góða kennara og færa rök fyrir tilnefningunni. Í framhaldinu mun Menntavísindasvið HÍ veita nokkrum framúrskarandi kennurum viðurkenningu.

Ég hvet landsmenn til að taka þátt í þessu átaki með okkur, kalla fram eiginleika sem prýða góða kennara og heiðra þá sem hafa haft jákvæð áhrif á líf þeirra.

Öruggt og fjölbreytt framtíðarstarf

Jóhanna Einarsdóttir skrifar:

Leikskólastigið er fyrsta skólastigið. Þar fer fram nám sem leggur grunn að framtíð barna og námi á öðrum skólastigum. Reynsla barna í leikskóla getur haft varanleg áhrif á námsferil þeirra og lífsgæði. Það er því mikilvægt að til starfa í leikskólum veljist vel menntað og hæft fólk. Auknar kröfur eru nú gerðar til leikskólakennara og er nám þeirra nú fimm ár eins og nám annarra kennara. Leikskólakennari er lögverndað starfsheiti sem krefst leyfisbréfs sem veitt er af mennta- og menningarmálaráðherra.

Sveigjanlegt nám
Við Menntavísindasvið Háskóla Íslands er boðið upp á nokkrar leiðir til að stunda leikskólakennaranám.
Í fyrsta lagi geta nemendur lokið fimm ára námi í leikskólakennarafræðum. Fyrstu nemendur í nýju fimm ára meistaranámi luku námi vorið 2014. Í öðru lagi geta þeir sem lokið hafa grunnnámi í öðrum háskólagreinum bætt við sig tveimur árum á meistarastigi og fengið réttindi sem leikskólakennarar. Þessi leið hefur notið aukinna vinsælda. Síðastliðið haust innrituðust t.d. 30 manns með fjölbreytta grunnmenntun í meistaranám í leikskólafræðum. Í þriðja lagi er hægt að ljúka náminu í áföngum. Byrja t.d. á tveggja ára diplómunámi eða þriggja ára B.Ed.-námi í leikskólafræði og byggja ofan á það nám þegar hverjum og einum hentar.

Fjölgun nemenda
Á síðasta ári fjölgaði nemendum í leikskólakennaranámi við Háskóla Íslands verulega, enda bíður fólks að námi loknu fjölbreytt framtíðarstarf þar sem atvinnuleysi þekkist ekki. Nú vantar um 1300 leikskólakennara í landinu. Námið er fjölbreytt og sveigjanlegt og geta nemendur stundað námið í staðnámi en einnig í fjarnámi sem gefur kost á að sækja námið með vinnu og ráða námshraðanum. Jafnframt eiga nemendur af landsbyggðinni og fólk búsett erlendis auðveldara með að sækja námið. Í leikskólakennaranámi býðst stúdentum tækifæri til að taka þátt í rannsóknum á leikskólastiginu og á þann hátt hafa áhrif á viðhorf og stefnumótun í málefnum barna.

Framtíðarstarfið – Viltu verða leikskólakennari?
Árið 2014 var hleypt af stokkunum kynningarátaki um eflingu leikskólastigsins undir heitinu „Framtíðarstarfið“. Auk Háskóla Íslands standa mennta- og menningarmálaráðuneytið, Háskólinn á Akureyri, Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga að átakinu sem hefur það að markmiði að fjölga vel menntuðum og hæfum leikskólakennurum. Á vefsíðu Framtíðarstarfsins (www.framtidarstarfid.is) er að finna ítarlegt fræðsluefni um leikskólakennarastarfið og er leitast við að sýna störf leikskólakennara í raunsæju ljósi með stuttum myndböndum og viðtölum við leikskólakennara og nemendur. Helstu skilaboð sem þar má finna eru þau að leikskólakennaranámið er fjölbreytt og sveigjanlegt og að námi loknu bjóðast fólki störf á sínu sérsviði. Leikskólakennarastarfið er áhugavert og gefandi og í störfum sínum hafa leikskólakennarar möguleika á að hafa áhrif á framtíð einstaklinga og mótun samfélagsins.

 

Grein fyrst birt á Vísir.is

Leikskólakennaranám við Háskólann á Akureyri

Háskólinn á Akureyri tók til starfa árið 1987 og kennaradeild var stofnuð árið 1993. Haustið 1996 settust síðan fyrstu leikskólakennaranemarnir á háskólabekk undir dyggri leiðsögn Guðrúnar Öldu Harðardóttur brautarstjóra leikskólabrautar. Áhersla í náminu var á listir og sköpun, leikskólafræði, heimspeki, umhverfi og náttúru, með samþætting þessa sviða að leiðarsljósi. Lögð var áhersla á vettvangsnám og unnin vönduð handbók sem fylgdi nemum á vettvang. Fjarnám hefur alla tíð verið mikilvægur þáttur í námi kennaranema við HA.

Hugtakið leikskólafræði varð til og annað einkennishugtak leikskólabrautar var vísindasmiðja en Kristín Dýrfjörð hefur í gegnum árin þróað og byggt upp vönduð námskeið með áherslu á fjölbreytt vísindi í leikskólastarfi.

Árið 1998 bauð kennaradeild upp á sérskipulagt nám fyrir leikskólakennara með „gamla“prófið og var ég ein af þeim fjölmörgu fóstrum/leikskólakennurum sem nýttu sér tækifæri til að bæta við menntunina og vinna að B.Ed. gráðu í leikskólafræðum. Framhaldsnám í leikskólafræðum hófst haustið 2000 og þar mátti ljúka námi,  fyrst til diplómu, en síðar til meistaraprófs en þeir sem fyrst hófu námið þurftu að bíða í eitt ár áður en seinni hluti námsins var í boði. Stjórnun og sérkennsla voru námsleiðirnar fyrstu árin en síðar bættust fleiri við og nú síðast upplýsingatækni í námi og kennslu.

Árið 2008 breyttu ný lög stöðunni umtalsvert og nám til kennarafræða við HA var tekið til endurskoðunnar og skipulagt í takt við nýjar áherslur, sem fimm ára nám til meistaragráðu. Nú síðustu ár hefur einnig verið boðið upp á diplómu í leikskólafræðum en þá geta nemar lokið tveggja ára diplómu á grunnstigi sem veitir tiltekna stöðu í leikskólum eða einnig er hægt að haldið hikstalaust áfram og klára eitt ár í viðbót, þriðja árið, til B.Ed. gráðu.

Leikskólafræðin samanstanda af fjölmörgum námskeiðum, sum eru samkennd með grunnskóla- og íþróttafræðum en önnur sérkennd. Jórunn Elídóttir kennir námskeið um leikskólakennarann svo dæmi séu tekin og Kristín Dýrfjörð kennir t.d. námskeið um sjálfbærni og umhverfismennt. Auk þess kennir Kristín vísindasmiðju, en orðspor hennar á þessum vettvangi hefur farið víða. Góður gaumur hefur verið gerður að námskeiðum hennar annars vegar um kennsluaðferðir leikskóla og hins vegar um yngstu börnin í leikskólanum en einnig sér hún um námskeið í stjórnun í leikskóla þar sem áherslan er á deildarstjórnun.

Sjálf hef ég fengið að setja mitt spor á námið, m.a. með námskeiði sem kennt er á 4. ári um ævintýri og ljóð sem kennsluleið í leikskólastarfi auk þess sem ég ber ábyrgð á tveimur námskeiðum um leikinn. Fleiri áhugaverð námskeið má nefna s.s. námskeið um foreldrasamstarf í leikskólum, um málþroska, um bernskuna og barnið í samfélaginu, barnabókmenntir og fleira.

Vettvangsnám er enn stór þáttur í náminu. Nemar fara í skólaheimsóknir á fyrsta ári, dvelja vikur á vettvangi tvisvar á öðru ári og eru viðloðandi vettvang vormisseri þriðja árs. Nemar i diplómunámi ljúka tveimur slíkum námskeiðum. Að lokum er haustmisseri fjórða árs námstími á vettvangi en vormisser fer svo i rannsóknarritgerð og er því allt fimmta árið nokkuð öðruvísi en árin á undan.

Nemar í leikskólafræðum eru annað hvort í staðnámi eða fjarnámi og er fjarnám í auknum mæli sveigjanlegt nám með takmarkaðri viðveru. Það er einkar ánægjulegt og þakklátt starf að kenna leikskólakennaranemum og oft líflegt í tímum. Það fylgir því alltaf nokkurri eftirsjá að sjá hópana brautskrást og yfirgefa skólann til að hefja starfsferil í leikskólum landsins, eftirsjá en einnig mikið stolt og ánægja.

Það eru margar leiðir færar við kennaradeild HA fyrir þann sem vill verða leikskólakennari eða stunda símenntun. Sem dæmi má nefna að starfandi kennarar geta sótt valin námskeið á meistarastigi í gegnum símenntun HA. Ef þeir kjósa geta þeir lokið námskeiðum á sömu forsendum og aðrir nemar og fengið einingar metnar inn á meistarastigið, kostur fyrir þann sem langar að læra meira en veigrar sér við þeirri skuldbindingu sem það er að skrá sig í meistaranám.

Kennaradeild HA er góður kostur fyrir þann sem hefur hug á að verða kennari eða bæta við sig námi. Aðgengi að kennurum er gott, staðblærinn jákvæður og góður og nemendur gjarnan ánægðir að námi loknu.

annaelisa@unak.is

http://www.unak.is/hugogfelagsvisindasvid/kennaradeild

Heimildir eru m.a. sóttar í heimasíðu HA og bókina Háskólinn á Akureyri 1987-2012 sem kom út árið 2012 í ritstjórn Braga Guðmundssonar og gefin út af Háskólanum á Akureyri, höfundar kafla í bókinni eru fjölmargir.

 

Fyrst birt á Koffortið

Framtíðarstarfið hlaut Orðsporið 2017

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Orðsporið 2017 – hvatningarverðlaun í leikskólanum Hofi á Degi leikskólans sem haldinn var hátíðlegur víða um land í dag. Það var Framtíðarstarfið – átaksverkefni um eflingu leikskólastigsins sem hlaut verðlaunin en að því standa Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Framtíðarstarfinu var hleypt af stokkunum árið 2014 og er markmið þess að efla jákvæða ímynd leikskólans og fjölga þeim sem leggja fyrir sig nám í leikskólakennarafræðum. Verkefnið hefur borið árangur því fjöldatölur háskólanna sýna að aðsókn í námið hefur aukist á því tímabili sem átakið hefur staðið.

Í umsögn valnefndar segir: „Allir geta verið sammála um að mikilvægt er að efla leikskólastigið enda hagsmunamál að hafa vel menntaða starfsmenn í leikskólum landsins. Það mun án efa skila sér í auknum gæðum í skólastarfinu og fagmennsku og um leið styrkja leikskóla sem áhugaverða vinnustaði. Því er átaksverkefni á borð við Framtíðarstarfið afar mikilvægt og til þess fallið að efla orðspor leikskólakennarastarfsins og breyta afstöðu ungs fólks til starfsins.“

Dagur leikskólans var haldinn í tíunda sinn í dag en markmið dagsins er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og beina athygli fólks að því metnaðarfulla starfi sem innt er af hendi í leikskólum landsins.

Fyrst birt á vef Háskóla Íslands

Mynd frá RÚV

Viðtal: Bráðvantar fleiri leikskólakennara

Arna H. Jónsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, og Björk Óttarsdóttir, sérfræðingi hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, fóru yfir málið á RÚV.

Hlusta á viðtal: http://www.ruv.is/menntamal/bradvantar-fleiri-leikskolakennara

Leið fyrir að vera smávaxinn Halli berst gegn fordómum en segist sjálfur hafa verið báðum megin borðsins. Hann geti verið fordómafullur en einnig leið hann fyrir það þegar hann var yngri að vera smávaxinn og var strítt vegna þess.

„Ég er ekki að fara vinna Eurovision“

Haraldur Freyr Gíslason segist oft hafa verið fordómafullur.

Hann er baráttumaður fram í fingurgóma hvort sem hann berst fyrir fordómalausum heimi eða bættum kjörum leikskólakennara. Haraldur Freyr Gíslason, eða Halli eins og hann er kallaður, er þó handviss um að hann vinni ekki Eurovision-keppnina en er glaður að hafa fengið tækifæri með félögum sínum í Pollapönki til að bera út boðskap sem er þeim svo mikilvægur.Viktoría Hermannsdóttir settist niður með Halla pollapönkara í Kaupmannahöfn og ræddi við hann um hvernig hann villtist inn í starf leikskólakennara, þegar hann var á barmi heimsfrægðar, og ekki síst Eurovision-ævintýrið.

Lag Pollapönkaranna, Enga fordóma, hefur vakið mikla athygli en þar syngja þeir um að allir eigi að fá að vera eins og þeir eru. Sjálfur segist Halli hafa verið báðum megin borðsins. Hann geti sjálfur verið fordómafullur og hefur líka lent í því að vera strítt því hann þótti öðruvísi að einhverju leyti. „Ég var mjög smávaxinn en ég er „fighter“ og beit á jaxlinn. Ég hafði þann eiginleika og náði þannig að verða ekki undir,“ segir hann.

„Hluti af því að gera þessi lög er að horfast í augu við eigin fordóma og láta fólk hugsa um eigin fordóma. Ég hef oft verið fordómafullur og þarf reglulega að skoða sjálfan mig og spegla mig til að skoða eigin fordóma.

Ég held, en ég veit ekki hvort það sé rétt eða ekki, en ég held að börn fæðist fordómalaus, svo gerist eitthvað á leiðinni og samfélagið smitar það af sumum fordómum og það er okkar hlutverk sem fullorðinna og foreldra að rjúfa þennan hring með því að hugsa okkar gang sjálf,“ segir Halli og fær sér sopa af kaffinu.

Grein fyrst birt á dv.is

Logi Pedro segir frá leikskólaárunum

Í nýju myndbandi á vegum verkefnis sem nefnist Framtíðarstarfið talar Logi Pedro Stefánsson um leikskólaárin sín. Logi Pedro hefur gert garðinn frægan með Retro Stefson, Highlands og sem Pedro Pilatus en einhvers staðar verða allir að byrja og Logi segir það fyrsta sem komi upp í hugann tengt leikskólanum vera söngstundirnar. Þegar Logi byrjaði á leikskóla var hann nýfluttur til Íslands og hann segir sönginn hafa hjálpað sér við að læra tungumálið.

„Börn draga umhverfið í sig þannig að það er mjög mikilvægt að hafa listina í kringum sig, hafa söng og menningu, því þetta er allt eitthvað sem börn draga í sig og verður þeim til góðs í framtíðinni, þetta styrkir þau,“ segir Logi í myndbandinu. Logi segir oft gleymast hversu mikilvægt starf leikskólakennarans er en leikskólarnir séu ákveðinn grunnur að okkar samfélagi.

Framtíðarstarfið er vefsíða sem er meðal annarra á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Félags leikskólakennara en þar er starf leikskólakennara kynnt sem raunhæfur, skemmtilegur og gefandi möguleiki fyrir ungt fólk. Á síðunni er að finna haldgóðar upplýsingar um starfið sem og fleiri myndbönd af svipuðum toga og myndbandið af Loga hér að neðan. Monitor hvetur þig til að kynna þér hvort þú sért ekki efni í  hvunndagshetju á við leikskólakennara.

Frétt birt fyrst á mbl.is (24.04.2014)

Vilja ná til unga fólksins og ómenntaðra starfsmanna

Í dag verður árvekniátakinu Framtíðarstarfið hleypt af stokkunum en markmiðið með verkefninu er að fræða fólk um leikskólakennarastarfið og námið að baki því. Að átakinu standa Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla og Efling stéttarfélag en tilurð þess má rekja til skýrslu um aðgerðir til eflingar leikskólastiginu, sem unnin var fyrir ráðuneytið 2012.

Samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda skulu að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við hvern leikskóla teljast til stöðugilda leikskólakennara en til að mæta þeim kröfum vantar 1.300 leikskólakennara. Að óbreyttu er útlit fyrir að vöntunin verði enn meiri því umsóknum í leikskólakennaranám hefur fækkað og meðalaldur stéttarinnar fer hækkandi.

Arna H. Jónsdóttir, formaður námsbrautar um menntun ungra barna í leik- og grunnskóla hjá Háskóla Íslands, segir mörgu um að kenna en hún telur að viðhorfin í samfélaginu leiki stórt hlutverk. „Ég held að þetta starf og ýmis önnur, sem tengjast kennslu, uppeldi og umönnun, séu ekki nógu hátt skrifuð í samfélaginu, þótt við tölum kannski þannig á tyllidögum. Mér finnst að það þurfi að sýna það í verki alla daga að við viljum stuðla að góðri menntun okkar yngstu samfélagsþegna en mér finnst menntun þessarar stéttar oft vera töluð niður,“ segir hún.

Menntun lykilforsenda gæða

Arna segir leikskólakennarastarfið lifandi og skemmtilegt og það sé algengt að afstaða fólks til þess breytist þegar það hefur prófað að vinna í leikskóla. Hún segir leikskólakennara ganga í margvíslegar stöður og launaskalinn sé fjölbreytilegur en á sama tíma og rýr kjör takmarki áhuga á kennaranáminu virðist margir halda að laun kennara séu lélegri en þau raunverulega eru.

Átakið fer fram á Facebook og vefsíðunni www.framtidarstarfid.is en að auki verður auglýsingum komið fyrir á strætóskýlum. Markmiðið er að ná til ungs fólks og almennra starfsmanna leikskólanna en Arna segir langtímarannsóknir sýna að fagmenntað starfsfólk sé lykilforsenda gæða í leikskólastarfi.

Brýnt að leiðrétta launin

„Leikskólastigið sem skólastig hefur þróast mjög hratt, leikskólum hefur fjölgað og við höfum ekki náð, því miður, að framleiða miðað við þróunina,“ segir Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, um kennaraskortinn. Hann segir brýnt að leiðrétta kjör leikskólakennara.

„Það er okkar hlutverk, og samfélagsins alls, að búa þannig um hnútana að laun og starfskjör séu samkeppnishæf við aðra sérfræðinga. Við getum endalaust talað en nú þarf bara að gera og það stendur ekki á okkur, heldur þurfa sveitarfélögin að gera sér grein fyrir vandanum og bregðast við honum. Það þýðir ekki að segja: Við viljum metnað, við viljum hafa gott skólastig, við viljum vel menntaða einstaklinga, en stíga svo ekki nægilega stór skref til að leiðrétta laun og starfskjör,“ segir hann.

Haraldur segir samningaviðræður á góðu róli en þolinmæði leikskólakennara verði af skornum skammti ef á daginn kemur að sveitarfélögin eru ekki reiðubúin til að stíga fyrrnefnd skref.

Skólinn vel mannaður

Anna Birna Snæbjörnsdóttir, sviðsstjóri menntasviðs Kópavogsbæjar, segir lýsingar deildarstjóra á leikskólanum Marbakka, sem birtust í Morgunblaðinu í gær, ekki eiga við rök að styðjast. Hún segir mönnun á leikskólanum í samræmi við reglugerð og rúmlega það en veikindi séu vissulega vandamál, líkt og annars staðar.

„Þetta er nokkuð sem hefur talsvert mikið verið rætt meðal stjórnenda í leik- og grunnskólum, og meðal sviðsstjóra, hvernig eigi að bregðast við þessu, en það er bara svolítið vandasamt að bregðast við því það eru svo margir þættir sem hafa áhrif á þetta,“ segir hún.

Anna segir unnið að því að styrkja skólana hvað þetta varðar, t.d. með heilsueflingu, og hún segir starfsfólk bæjarskrifstofunnar í góðu sambandi við stjórnendur leikskólanna. „Ég tel okkur fylgjast mjög vel með því hvernig aðstæður eru í leikskólunum, það eru reglulega fundir með öllum leikskólastjórunum og starfsmönnum leikskóladeildar og þar er farið yfir öll mál er varða leikskólana,“ segir hún.

Anna segir leikskólakennara í Kópavogi almennt ánægða í starfi en álag og veikindi séu umkvörtunarefni í öllum sveitarfélögum.

–  Grein úr Morgunblaðinu  16.04.2014

 

Stoltur leikskólakennari

Um daginn þegar ég var úti að djamma, þá rakst ég á gamlan skólafélaga úr grunnskóla. Það er svo sem ekki í frásögu færandi, nema hvað, að við heilsumst og förum að spjalla – þið vitið, þetta klassíska þegar maður hefur ekki hitt manneskjuna síðustu 10 árin.

Hvað er að frétta af þér, spyr ég…   Og hann spyr á móti: Hvað ert þú að gera í lífinu?

„Ég er kennari – leikskólakennari“ svaraði ég.

Alltaf þegar ég segi fólki að ég sé leikskólakennari, þá fyllist ég stolti.

Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða söngkona, leikkona og dýralæknir. Eins og við allar, stelpurnar í bekknum. Kennarar mínir í grunnskóla sögðu oft við mig að ég yrði ábyggilega kennari. „Iss“ sagði ég, „það er ekki séns.“

Þegar ég varð eldri ætlaði ég að verða læknir. Og alveg fram yfir tvítugt var það stefnan. Eftir stúdent fór ég svo að vinna í leikskóla, þar sem ég hafði alltaf haft svo gott lag á börnum, verið að passa sem unglingur og svona. En þar uppgötvaði ég hversu gaman mér fannst að vinna með börnum. Og ég fór að íhuga að verða kannski bara barnalæknir, vinna kannski á barnaspítalanum…

Ég kíkti svo á háskólakynningu og komst að því að mér fannst læknanámið ekkert spennandi. En hvað með hjúkrunarfræði, hugsaði ég. Ég gæti kannski orðið hjúkrunarfræðingur á barnaspítalanum…

Eftir nokkra umhugsun ákvað ég svo að skoða leikskólakennaranámið og þá áttaði ég mig á því að þangað átti ég að sjálfsögðu að fara! Mér fannst svo gaman í vinnunni í leikskólanum að mig langaði helst ekki að hætta!

 Starfið var svo skemmtilegt. Börnin yndisleg og óutreiknanleg. Dagarnir ólíkir og starfið svo fjölbreytt.

Starfið var svo skemmtilegt. Börnin yndisleg og óutreiknanleg. Dagarnir ólíkir og starfið svo fjölbreytt.

Já, afhverju ekki! Tja… launin voru ekkert til að hrópa húrra fyrir – og eru það svo sem ekki heldur í dag – en mér fannst vinnan skemmtileg og það var það sem skipti máli.

Á þessum tíma, en þetta var árið 2003, þá var ég ítrekað spurð að því hvers vegna í ósköpunum ég ætlaði að verða leikskólakennari. Hvernig ætlaði ég eiginlega að geta lifað á laununum? Og ég veit ekki hversu oft ég svaraði fólki: „Af því að mér finnst gaman að vinna í  leikskóla. Ég vil frekar hafa minna á milli handanna og finnast skemmtilegt í vinnunni.“

(„Svo tek ég bara þátt í að berjast fyrir hærri launum í leiðinni“, sagði ég líka – og það geri ég reyndar ennþá í dag, en það er önnur saga og efni í annan pistil.)

En málið er sem sagt það, að mér finnst ennþá skemmtilegt í vinnunni, og eiginlega skemmtilegra en mér fannst áður en ég varð leikskólakennari. Því meira sem ég veit um þroska barna, nám þeirra og menntun, því skemmtilegra verður starfið. Því meira sem ég læri af faglegum vinnubrögðum og því meiri þekkingu sem ég viða að mér, þeim mun betur nýt ég mín í starfinu. Því meiri reynslu sem ég öðlast því betri kennari verð ég og þeim mun þýðingarmeira verður starfið.

Að vera leikskólakennari getur auðvitað verið krefjandi og ögrandi, en það er líka það sem er skemmtilegt við það. Að fá að takast á við áskoranir á hverjum degi. Að upplifa eitthvað nýtt og óvænt á hverjum degi. Að gefa af sér. Að skipta máli í lífi einhvers barns. Að finna að maður er mikilvægur.

Mér finnst alltaf jafn gaman að segja sögur úr starfinu mínu og í vikunni átti ég stutt samtal við einn 4 ára dreng á deildinni minni. Hann mætti í leikskólann, eins og venjulega, vinkaði pabba sínum í glugganum og settist svo við morgunverðarborðið hjá mér. Ég sá að hann var að hugsa. Eftir dágóða stund segir hann við mig: „ Mamma mín var pirruð. Hún var stressuð út í pabba minn“.

Þessi drengur á góða foreldra og býr á góðu heimili þar sem daglegt líf er líklega bara svipað og hjá okkur hinum. Dagarnir eru misgóðir og fjölskyldan er mis vel stemmd.

En þessi setning hans sat svolítið í mér. Hún fékk mig til að hugsa um mikilvægi mitt sem kennarans hans. Þarna mætir þessi litli snáði með höfuðið fullt af hugsunum og hjartað fullt af tilfinningum og ég er manneskjan sem hann langar að deila því með. Ég stend honum það nærri að hann treystir mér fyrir þessum tilfinningum sínum og þessum hugsunum um lífið og tilveruna. Þetta voru ekki mörg orð en þau voru honum eflaust mjög mikilvæg. Og að ég skyldi vera á staðnum, tilbúin til að hlusta á hann og spjalla um málið, hafði mikla þýðingu fyrir hann. Og líka fyrir mig.

En þetta er bara pínulítið dæmi úr starfi mínu sem leikskólakennari. Ég, ásamt öllum hinum leikskólakennurunum, gætum eflaust komið með mörg hundruð svona litlar sögur sem minna okkur á mikilvægi þess starfs sem við vinnum í leikskólunum. Hvað einn kennari getur skipt miklu máli í lífi barns. Hvað við í raun og veru gefum mikið af okkur og hvað við fáum mikið til baka.

Ég veit fátt skemmtilegra en að sjá börnin í leikskólanum taka framförum. Sjá hvernig þeim tekst að gera betur en í gær,  með dyggri aðstoð kennaranna og vina sinna. Það er gefandi að eiga samtal við 5 ára barn um sólina og himininn, hvað verður um okkur þegar við deyjum og hvernig maður á að vera góður vinur. Og það er gefandi að hjálpa barninu að læra að setja teygjuna undir stígvélin.

Allt er þetta hluti af því frábæra starfi sem leikskólakennarar vinna. Að gefa af sér og fá til baka óendanlegt traust og umhyggju frá börnunum. Ég velti því fyrir mér í hvaða starfi maður fær betri móttökur en í leikskólanum á morgnana: Börnin kalla: „ Sveinlaug er komin“ og svo fær maður nokkur knús.

Og já, svo ég snúi mér nú aftur að sögunni um gamla skólafélagann sem ég hitti á djamminu og spurði mig hvað ég væri að gera í lífinu.

„ Ég er kennari“, svaraði ég – „leikskólakennari.“

„ Já, ok“, svaraði hann og varð hugsi. „Ég hefði alltaf haldið að það yrði eitthvað meira úr þér.  Æ, þú veist, eitthvað merkilegra, læknir eða eitthvað svoleiðis. Þú sem varst alltaf svo klár í skóla“.

Og án þess að hugsa kom þetta svar frá mér:

„Er hægt að verða eitthvað meira og merkilegra en kennari?

Höfundur: Sveinlaug Sigurðardóttir

Leikskólakennarar í Júróvisjón

Okkar frábæru leikskólakennarar og Pollapönkarar fara fyrir hönd þjóðarinnar í aðalkeppni Júróvisjón í ár og hyggjast kveða niður fordóma og annan eins ósóma með laginu No Prejudice.