Stoltur leikskólakennari

Um daginn þegar ég var úti að djamma, þá rakst ég á gamlan skólafélaga úr grunnskóla. Það er svo sem ekki í frásögu færandi, nema hvað, að við heilsumst og förum að spjalla – þið vitið, þetta klassíska þegar maður hefur ekki hitt manneskjuna síðustu 10 árin.

Hvað er að frétta af þér, spyr ég…   Og hann spyr á móti: Hvað ert þú að gera í lífinu?

„Ég er kennari – leikskólakennari“ svaraði ég.

Alltaf þegar ég segi fólki að ég sé leikskólakennari, þá fyllist ég stolti.

Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða söngkona, leikkona og dýralæknir. Eins og við allar, stelpurnar í bekknum. Kennarar mínir í grunnskóla sögðu oft við mig að ég yrði ábyggilega kennari. „Iss“ sagði ég, „það er ekki séns.“

Þegar ég varð eldri ætlaði ég að verða læknir. Og alveg fram yfir tvítugt var það stefnan. Eftir stúdent fór ég svo að vinna í leikskóla, þar sem ég hafði alltaf haft svo gott lag á börnum, verið að passa sem unglingur og svona. En þar uppgötvaði ég hversu gaman mér fannst að vinna með börnum. Og ég fór að íhuga að verða kannski bara barnalæknir, vinna kannski á barnaspítalanum…

Ég kíkti svo á háskólakynningu og komst að því að mér fannst læknanámið ekkert spennandi. En hvað með hjúkrunarfræði, hugsaði ég. Ég gæti kannski orðið hjúkrunarfræðingur á barnaspítalanum…

Eftir nokkra umhugsun ákvað ég svo að skoða leikskólakennaranámið og þá áttaði ég mig á því að þangað átti ég að sjálfsögðu að fara! Mér fannst svo gaman í vinnunni í leikskólanum að mig langaði helst ekki að hætta!

 Starfið var svo skemmtilegt. Börnin yndisleg og óutreiknanleg. Dagarnir ólíkir og starfið svo fjölbreytt.

Starfið var svo skemmtilegt. Börnin yndisleg og óutreiknanleg. Dagarnir ólíkir og starfið svo fjölbreytt.

Já, afhverju ekki! Tja… launin voru ekkert til að hrópa húrra fyrir – og eru það svo sem ekki heldur í dag – en mér fannst vinnan skemmtileg og það var það sem skipti máli.

Á þessum tíma, en þetta var árið 2003, þá var ég ítrekað spurð að því hvers vegna í ósköpunum ég ætlaði að verða leikskólakennari. Hvernig ætlaði ég eiginlega að geta lifað á laununum? Og ég veit ekki hversu oft ég svaraði fólki: „Af því að mér finnst gaman að vinna í  leikskóla. Ég vil frekar hafa minna á milli handanna og finnast skemmtilegt í vinnunni.“

(„Svo tek ég bara þátt í að berjast fyrir hærri launum í leiðinni“, sagði ég líka – og það geri ég reyndar ennþá í dag, en það er önnur saga og efni í annan pistil.)

En málið er sem sagt það, að mér finnst ennþá skemmtilegt í vinnunni, og eiginlega skemmtilegra en mér fannst áður en ég varð leikskólakennari. Því meira sem ég veit um þroska barna, nám þeirra og menntun, því skemmtilegra verður starfið. Því meira sem ég læri af faglegum vinnubrögðum og því meiri þekkingu sem ég viða að mér, þeim mun betur nýt ég mín í starfinu. Því meiri reynslu sem ég öðlast því betri kennari verð ég og þeim mun þýðingarmeira verður starfið.

Að vera leikskólakennari getur auðvitað verið krefjandi og ögrandi, en það er líka það sem er skemmtilegt við það. Að fá að takast á við áskoranir á hverjum degi. Að upplifa eitthvað nýtt og óvænt á hverjum degi. Að gefa af sér. Að skipta máli í lífi einhvers barns. Að finna að maður er mikilvægur.

Mér finnst alltaf jafn gaman að segja sögur úr starfinu mínu og í vikunni átti ég stutt samtal við einn 4 ára dreng á deildinni minni. Hann mætti í leikskólann, eins og venjulega, vinkaði pabba sínum í glugganum og settist svo við morgunverðarborðið hjá mér. Ég sá að hann var að hugsa. Eftir dágóða stund segir hann við mig: „ Mamma mín var pirruð. Hún var stressuð út í pabba minn“.

Þessi drengur á góða foreldra og býr á góðu heimili þar sem daglegt líf er líklega bara svipað og hjá okkur hinum. Dagarnir eru misgóðir og fjölskyldan er mis vel stemmd.

En þessi setning hans sat svolítið í mér. Hún fékk mig til að hugsa um mikilvægi mitt sem kennarans hans. Þarna mætir þessi litli snáði með höfuðið fullt af hugsunum og hjartað fullt af tilfinningum og ég er manneskjan sem hann langar að deila því með. Ég stend honum það nærri að hann treystir mér fyrir þessum tilfinningum sínum og þessum hugsunum um lífið og tilveruna. Þetta voru ekki mörg orð en þau voru honum eflaust mjög mikilvæg. Og að ég skyldi vera á staðnum, tilbúin til að hlusta á hann og spjalla um málið, hafði mikla þýðingu fyrir hann. Og líka fyrir mig.

En þetta er bara pínulítið dæmi úr starfi mínu sem leikskólakennari. Ég, ásamt öllum hinum leikskólakennurunum, gætum eflaust komið með mörg hundruð svona litlar sögur sem minna okkur á mikilvægi þess starfs sem við vinnum í leikskólunum. Hvað einn kennari getur skipt miklu máli í lífi barns. Hvað við í raun og veru gefum mikið af okkur og hvað við fáum mikið til baka.

Ég veit fátt skemmtilegra en að sjá börnin í leikskólanum taka framförum. Sjá hvernig þeim tekst að gera betur en í gær,  með dyggri aðstoð kennaranna og vina sinna. Það er gefandi að eiga samtal við 5 ára barn um sólina og himininn, hvað verður um okkur þegar við deyjum og hvernig maður á að vera góður vinur. Og það er gefandi að hjálpa barninu að læra að setja teygjuna undir stígvélin.

Allt er þetta hluti af því frábæra starfi sem leikskólakennarar vinna. Að gefa af sér og fá til baka óendanlegt traust og umhyggju frá börnunum. Ég velti því fyrir mér í hvaða starfi maður fær betri móttökur en í leikskólanum á morgnana: Börnin kalla: „ Sveinlaug er komin“ og svo fær maður nokkur knús.

Og já, svo ég snúi mér nú aftur að sögunni um gamla skólafélagann sem ég hitti á djamminu og spurði mig hvað ég væri að gera í lífinu.

„ Ég er kennari“, svaraði ég – „leikskólakennari.“

„ Já, ok“, svaraði hann og varð hugsi. „Ég hefði alltaf haldið að það yrði eitthvað meira úr þér.  Æ, þú veist, eitthvað merkilegra, læknir eða eitthvað svoleiðis. Þú sem varst alltaf svo klár í skóla“.

Og án þess að hugsa kom þetta svar frá mér:

„Er hægt að verða eitthvað meira og merkilegra en kennari?

Höfundur: Sveinlaug Sigurðardóttir

Dyrleif skjöldal

Dagur í leikskóla

Flestir hafa þá mynd af kennslu í huganum, að kennarinn standi fyrir framan hóp barna sem sitja á stólum við borð. Bak við hann er tafla sem hann getur skrifað á eða fengið börnin, eitt af öðru, til þess. Við sem erum kominn á miðjan aldur og eldri kynntumst a.m.k. bara þess konar kennslu. Það var eftir bernskudaga okkar sem það varð algengt að börn dveldu lungann úr deginum í leikskóla eða skyldi ég segja barnaheimili eins og það var kallað í þá daga.

Ástæðan er einfaldlega sú að það er mjög erfitt að tala um hefðbundna daga í leikskólanum

Þegar ég velti því fyrir mér hvernig hefðbundinn dagur er í leikskólanum þá rekur mig í vörðurnar. Ástæðan er einfaldlega sú að það er mjög erfitt að tala um hefðbundna daga í leikskólanum. Þeir ráðast einfaldlega af þeim sem eru mættir, skipulaginu og staðháttum ss. veðri og allt þetta getur breyst á augabragði.

Hvernig er svo þessum börnum kennt? Hversvegna er þetta kallað skóli þegar „allir“ vita að góðu konurnar (fólkið, á einstaka stað) sem passa börnin láta þau bara leika sér daginn út og inn? Nú er það svo að leikur barna hefur verið mikið rannsakaður og sýnt hefur verið fram á að í gegnum leik læra börn. Þau læra lika af sér eldri/færari og með eftiröpun og endurtekningu. Skref fyrir skref þróast leikurinn og ef við gefum þeim færi á því þá verður til vitneskja hjá þeim, sem sagt nám.

Í dag er ég mætt í vinnuna mína skömmu fyrir kl. 8 og ég byrja daginn á því að taka á móti nemendum og foreldrum þeirra í forstofunni þegar þau koma. Ég býð góðan dag, alla daga! Ég spjalla lítilega við foreldra og börn á meðan börnin taka af sér og kveðja foreldri sitt. Stundum þarf ég að taka á móti skilaboðum um nýafstaðin veikindi ellegar önnur leiðindi sem sett geta mark sitt á daginn eða taka þarf tillit til. Ef það er eitthvað alvarlegt þá staldrar foreldrið við hjá skólastjóranum og léttir á hjarta sínu. Langflest börnin trítla kát og glöð inn og finna sér verkefni til að dunda við fram að morgunmat en það kemur fyrir að ég lána þeim fangið mitt til að kúra sig í, á meðan þau komast yfir þreytu eða leiðindin sem hrjá þau. Stundum spjöllum við en stundum þurfa þau bara frið til að jafna sig og láta strjúka yfir hár sitt og bak eða halda utan um sig.

Matmálstímar, þar með talinn morgunmatur, er t.d. kennsla í því að beita amboðum (hnífapörum). Eftir því sem aldur og þroski segir til um þá læra börnin smátt og smátt að skammta sér sjálf. Á meðan á máltíðum stendur byggjum við upp þekkingu á matartegundum, næringarefnum og hinum ýmsu bragðtegundum sem maturinn okkar býður uppá auk þess sem við nýtum tækifærin sem gefast til íslenskukennslu og borðsiðanáms. (Hlutur endurtekningar í námi.) Jú það er ósköp svipað og það var hér í denn þegar fjölskyldan borðaði saman en gerist það á heimilum nú til dags daglega?

Í dag er útiskóli. Þá fer ég með hópinn minn (elstu börnin) ásamt kennara 1. og 2. bekkjar grunnskólans á staðnum út. (Samvinna skólastiga) Ekki það að við förum ekki út á hverjum degi en útiskólinn fæst við „stýrðara“ nám úti, náttúruna, staðhætti og lýðræði vafið inn í ábyrgð einstaklinganna og leiki. Áhugi barnsins er verkefni dagsins. Á Svalbarðseyri erum við svo heppin að hafa eina bestu fjöru í Eyjafirði í 5 mínútna göngufæri og þangað er ferðinni heitið í dag.

Við höfum verið að vinna með áttirnar og nú ætlum við að kanna flóð og fjöru. Þegar við komum í fjöruna er sjórinn mitt á milli þess að hann er hæstur og lægstur. Hvort er nú að fjara út eða flæða að? Það er spurning dagsins. Eftir ýmsar bollaleggingar ákveða þau að búa til merki þar sem sjórinn er núna. Þau finna sér grein sem þau setja niður, upp á endann svo hún standi nú uppúr ef það er að flæða að og svo skoðum við hvað annað finnst í fjörunni sem merkilegt er að skoða nánar.

Þar er alltaf eitthvaða að skoða. Skeljar, kuðungar, glerbrot og það sem við fullorðna fólkið köllum rusl sem reynist oft í augum barnsins falinn fjársjóður sem er þess virði að skoða gaumgæfilega og spyrja ótal spurninga út í. Eitt sinn fundum við dauðan sel sem varð efni í mikinn lærdóm um seli. Hvernig syndir hann? Hvernig eru tennurnar í honum? Eru veiðihárin stíf? Hvað heita „fæturnir/hendurnar“? Hvað skyldu þeir vera þungir? og svo framvegis. Þroski og áhugi barnanna ræður því hve djúpt er kafað.

Nesti er nauðsynlegt þegar farið er í slíkar ferðir og þá þarf að finna stað sem hægt er að nærast á. Hvar er skjól að finna? Hvernig finnum við það? Ef glösin gleymast, hvernig drekkum við þá kakóið? Já við leitum lausna í náminu okkar. Áður en heim er farið er kannað hvort greinin sé á þurru eða hvort hún sé komin á kaf.

Þegar heim í skóla er komið eftir 2 tíma útiveru er gott að fá hádegismat í kroppinn og slaka svo á yfir góðri sögu og jafnvel taka lagið. Frjálsar stundir við hlutverka- eða byggingaleik, föndur, teikningu eða málun er þjálfun í sköpun, samskiptum, samhæfingu huga og handar sem eykur færni barnsins á öllum sviðum mannlegs þroska. Það er hluti af því að verða læs á umhverfi sitt og geta tekist á við sjálfan sig. Hlutverk kennarans er að hrósa þegar vel tekst til, grípa inn í þegar þau ráða ekki við málin og skoða hvernig þau læra. Leggja nám þeirra upp þannig að þau hafi ánægju af að takast á við það og geti verið stolt af útkomunni.

Meiri útivera og kaffitími einkenna seinni part dagsins. Í útiverunni fá þau pláss til að hreyfa sig. Þau hlaupa, stökkva, veltast um og klifra, þjálfa líkama sinn til að takast á við hóla og hæðir, snjó og klaka, sand og mold, rigningu og sól. Leikur þeirra, og þar með nám, er þjálfun í samskiptum sem leggur grunn að félagslegri færni þeirra.

Já það má segja að hver dagur sé sérstakur í leikskóla en sammerkt eiga þeir að allir eru þeir góðir dagar – allan daginn.

Dilla (Dýrleif Skjóldal) er leikskólakennari og sundþjálfari.

Eini karlkyns leikskólastjórinn

Ísland í dag fylgdist með degi í lífi eina karlkyns leikskólakennarans sem gegnir stöðu leikskólastjóra á Íslandi. 

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVAD51356C-CD82-4CF5-9840-301E7DE255F9
Birtist í Íslandi í dag 07.04.2014 Höfundur Sindri Sindrason

Af hverju er ég leikskólakennari?

Ég var frekar áttavilltur unglingur. Hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór var ekki mikið sem ég spáði í. Sérstaklega eftir að það varð ljóst að ég yrði seint atvinnumaður í knattspyrnu. 

Ég vil reyndar meina það að eina ástæðan fyrir því að ég varð ekki knattspyrnustjarna er sú að ég á afmæli í desember. Rannsóknir hafa sýnt að flestir þeir sem ná árangri í knattspyrnu eru fæddir snemma á árinu. Ég er ekki viss um að fyrrum þjálfarar mínir séu sammála þessari kenningu minni en það er nú önnur saga.

Úr knattspyrnunni lá leið mín í tónlistina og þar fann ég mig vel. Ég stofnaði hljómsveit með vinum mínum og heimsfrægð var á næsta leiti. Rokkið átti vel við mig og við félagarnir þurftum ekkert mikið til að lifa. Bara smá vasapening endrum og sinnum fyrir brauði í föstu og fljótandi formi.

Við vorum á leiðinni út í hinn stóra heim til að „meika“ það. Okkur vantaði bara smá pening fyrir farmiðanum. Mér datt í hug að sækja um starf í leikskóla. Ég var ráðinn. Ég lét alla vita sem vildu að ég ætlaði nú bara að stoppa þarna í nokkra mánuði á meðan ég væri að safna mér fyrir „meikfarmiðanum“.

Leikskólakennari á staðnum sagði mér að hún hefði sagt það sama fyrir 20 árum og líklega færi eins fyrir mér því leikskólakennarastarfið væri skemmtilegasta og mest gefandi starf í heiminum. Mér fannst hún vera klikkuð. Hún hafði hins vegar algjörlega rétt fyrir sér.

Kostaboð

Starfið náði að heilla mig upp úr skónum. Það var svo mikið frelsi. Það var svo mikið af verkefnum. Börnin voru svo skemmtileg. Mest hafði ég gaman af þeim börnum sem þurfti að hafa svolítið fyrir. Þau áttu alltaf sérstakan stað í mínu hjarta. Mér var oft boðið gull og grænir skógar af þessum litlu vinum mínum: „Halli, af hverju kemur þú ekki og gistir heima hjá mér um helgina?“ Sagði einn snillingurinn einu sinni og bætti við: „Þú getur bara sofið á milli mömmu og pabba. Þú mátt borða eins mikið Lucky charms og þú vilt. Svo horfum við bara á teiknimyndir allan morguninn á meðan mamma og pabbi sofa“.

Hvernig er hægt að neita slíku kostaboði?

Sem betur fer tókst mér að hafna tilboðinu án þess að særa þennan vin minn. Mér gekk vel í starfi. Ég fékk hrós og hvatningu frá yfirmanni mínum. Hún leyfði mér að þróast í starfi og leiðbeindi mér inn á réttar brautir.

Eftir fimm ára starf í leikskóla ákvað ég að sækja um í Kennaraháskóla Íslands og fékk inngöngu. Hugsunin um krefjandi háskólanám var vissulega íþyngjandi.

En áhyggjur mínar reyndust óþarfar. Tíminn í „Kennó“ var einn besti tími lífs míns og þótt námið væri oft erfitt og verkefnin í skólanum mörg og krefjandi, gekk mér vel í námi.

Leikskólakennaranám er frábært nám sem sinnt er af alúð bæði í Háskólanum á Akureyri og í Háskóla Íslands. Eftir útskrift hóf ég aftur störf á sama leikskóla og ég starfaði á áður en ég fór í Kennaraháskólann og nú með með meiri ábyrgð sem deildarstjóri. Starfið hélt áfram að veita mér gleði þó ábyrgðin yrði meiri.

Það var frábært að geta nú nýtt sér alla sérfræðiþekkinguna sem maður fékk í náminu til þess að verða fagmaður og auka gæði kennslunnar. Ég á mörgum mikið að þakka sem leiðbeindu mér á réttar brautir. Bæði kennurum, samstarfsmönnum sem og börnum og foreldrum.

Eftir að hafa starfað í leikskóla í 12 ár ákvað ég að bjóða mig fram sem formaður Félags leikskólakennara. Ég vildi reyna að gera gagn á þeim vettvangi. Starf formanns FL er krefjandi og skemmtilegt, en ég sakna alltaf starfsins í leikskólanum. Við val á námi og starfi þarf maður að meta allar hliðar. Kannski ert þú frábært efni í leikskólakennara án þess að hafa hugmynd um það.

Haraldur F. Gíslason

Úr Fréttablaðinu, 25.maí 2013.

Egill Óskarsson

Nýttu þínar sterkustu hliðar

Fyrir níu árum síðan hóf ég störf á leikskólanum Fögrubrekku í Kópavogi. Ég var 22 ára gamall og hafði eins og gengur og gerist brasað við hitt og þetta í gegnum tíðina; unnið á afgreiðslukassa, selt raftæki, borið út póst, gengið í skóla og jú, ég hafði unnið áður á leikskóla í stuttan tíma. Þegar ég gekk í fyrsta skipti inn á Fögrubrekku var það ansi fjarri huga mér að níu árum síðar yrði ég ennþá starfandi þar og orðin leikskólakennari og deildarstjóri.

Þegar ég gekk í fyrsta skipti inn á Fögrubrekku var það ansi fjarri huga mér að níu árum síðar yrði ég ennþá starfandi þar

Ég hafði aldrei hugleitt það að læra að verða leikskólakennari, eða yfir höfuð að leggja fyrir mig neitt sem tengdist kennslu og umönnun barna. Ég leit fyrst og fremst á leikskólann sem skemmtilegan vinnustað á meðan að ég væri að átta mig á því hvenær ég yrði eiginlega stór og hvað ég vildi verða þegar það gerðist. En smátt og smátt fór ég að átta mig á því hvað leikskólinn er spennandi vettvangur og hversu mikil tækifæri hann gefur einstaklingum til þess að nýta sterkar hliðar sínar í starfi.

Það er sama hvort maður hefur áhuga á jarðfræði, tónlist, prjónaskap, ljósmyndun eða bara hverju sem er, það er hægt að nýta þann áhuga og þá þekkingu sem maður hefur í starfinu með börnunum. Möguleikarnir til þess afmarkast í raun aðallega af hugmyndaflugi manns sjálfs og barnanna.

Starfið er  líka gríðarlega fjölbreytt. Viðfangsefnin eru af öllum toga. Þegar ég hóf störf á Fögrubrekku voru elstu börnin nýbúin að smíða flugvél úr trjágrein og ýmsum efnivið sem þau höfðu fundið. Við höfum fengið fiska og önnur nýveidd sjávardýr til þess að skoða með áhugasömum börnum. Við förum og skoðum söfn, gefum öndum brauð og förum á tónleika. Og þegar maður umgengst stóran hóp af börnum á hverjum degi er sífellt eitthvað nýtt að koma upp í samskiptum bæði á milli barna og fullorðinna og á milli barnanna sjálfra.

Samskiptin við börnin eru auðvitað eitt það allra skemmtilegasta við starf leikskólakennara. Leikskólabörn eru fróðleiksfús og sífellt að kanna og prófa heiminn í kringum sig. Þau kanna heiminn í rauninni með tilraunum eins og vísindamenn. Og gleðin sem fylgir því að fylgjast með barni sem áttar sig á einhverju nýju og skemmtilegu eða uppgötvar einhverja áður óþekkta hæfni er sennilega með því magnaðasta sem hægt er að upplifa í starfi.

Fagheimurinn í leikskólanum er líka spennandi. Uppeldis- og menntunarfræði eru greinar í sífelldri þróun og inn í þær spinnast raun-, hug- og félagsvísindi. Faglegt starf á íslenskum leikskólum er almennt til fyrirmyndar og var það eitt af því sem hreif mig mest þegar ég hóf störf á leikskóla fyrir níu árum. Þá var t.d. þróunarverkefni um tónlist í leikskólum nýlokið þar sem ég starfaði og vinna við annað, þar sem fimm ára börn saumuðu bútasaumsteppi og kjól í fullri stærð, í fullum gangi.

Mér finnst ég mjög heppinn að hafa ratað inn á leikskóla fyrir níu árum síðan. Ég nýt þess að verja hverjum virkum degi með hópi af börnum og að læra og leika mér með þeim. Að geta nýtt mér mínar sterku hliðar í fjölbreyttu og áhugaverðu starfi. Starfið getur auðvitað verið krefjandi líka en það jákvæða og gefandi vegur miklu þyngra þegar upp er staðið. Ég myndi hiklaust mæla með leikskólastörfum og leikskólakennaranáminu.

Egill Óskarsson leikskólakennari og deildarstjóri á leikskólanum Fögrubrekku