Meiri eftirspurn eftir sumum börnum

Ef markaðslögmál fá að ráða í skólakerfinu er það hentugra börnum sem falla vel að „norminu“ en þeim sem búa við einhvers konar fötlun eða frávik. Slík lögmál henta líka milli- og efri-stéttar foreldrum betur en öðrum foreldrum og slíkir foreldrar teljast „verðmætari“ en aðrir til að skapa skólanum jákvæða ímynd. Þegar markaðslögmál ráða í skólastarfi er hugmyndinni um að menntun eigi að vera almannagæði ýtt til hliðar vegna einkahagsmuna.

Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi dr. Berglindar Rósar Magnúsdóttur, lektors við Háskóla Íslands, sem hún flutti á ráðstefnu fyrir starfsfólk leikskóla Reykjavíkurborgar í gærmorgun. Erindi Berglindar bar heitið Gæði og jafnrétti í skólastarfi á tímum markaðsvæðingar.

Berglind hefur stundað rannsóknir á þessu sviði í tengslum við doktorsnám sitt við Cambridge-háskóla á Englandi. Hún skoðaði einkum bandarískt og breskt skólastarf, en segir að margt megi heimfæra á íslenskar aðstæður, en fáar rannsóknir hafi verið gerðar á þessu sviði hér.

Þegar auðmagn foreldra skapar börnum forskot

„Grundvallarhugmyndin með markaðsvæðingu skólanna er að þeir séu eins og sjoppur sem geti farið á hausinn ef ekki verður nægileg eftirspurn. Vandinn við þessa hugsun er sá að skólar hafa margþættu hlutverki að gegna í nærsamfélagi barna og velta má því fyrir sér hvort það sé ákjósanlegt að börn og skólaganga þeirra sé háð markaðslögmálum og því hversu mikinn tíma eða menningarlegt og fjárhagslegt auðmagn foreldri hefur til að skapa því forskot á menntamarkaði allt frá upphafi leikskólagöngu, eins og víða er erlendis,“ segir Berglind.

„Í staðinn fyrir ábyrgð stjórnvalda og samfélags að skapa faglegt starf á forsendum barnsins er mat á gæðum skóla sett í hendur foreldra, markaðarins og matsfyrirtækja. Hugmyndir um gæði tiltekinna skóla mótast oft af því hverjir það eru sem sækja skólana, af bakgrunni nemendanna frekar en hversu faglega og vel er unnið að margþættu hlutverki skóla gagnvart ólíkum hópum nemenda. Þetta þarf ekkert alltaf að fara saman,“ segir Berglind.

„Hlutverk skóla þrengist og snýst um að vinna að fyrirfram gefinni útkomu á sem stystum tíma fyrir sem minnsta fjármuni, rétt eins og framleiðsla á hamborgurum. Áherslan færist frekar á spurningar eins og: Hvað virkar til að uppfylla ákveðna staða? í staðinn fyrir að spyrja sig hvernig mennta eigi gagnrýninn borgara. Skólinn fer að snúast um að einstaklingurinn öðlist tiltekna atvinnuhæfni til að geta verið árangursríkur einstaklingur í markaðshagkerfi.“

Einstaklingshagsmunir ofar heildarhagsmunum

Er þetta svo slæmt? „Það eru skiptar skoðanir um það. En þegar skólar fara að stjórnast af framboði og eftirspurn skapast hætta á að einstaklingshagsmunir taki yfir heildarhagsmuni. Að fólk sem hefur sterka stöðu í samfélaginu getur nýtt sér skólakerfið í eigin þágu umfram aðra og að þeir foreldrar, sem þykja verðmætir fyrir ímynd skólans, geti beitt sér á ýmsan hátt til að fá fram forréttindi fyrir eigin börn,“ segir Berglind.

„Helstu niðurstöður rannsókna á þessu sviði eru að óheft markaðsvæðing í skólakerfum til lengri tíma skapi meiri menningar- og stéttarmun í skólum. Það verða til fleiri „elítu- og gettóskólar“ með tilheyrandi brennimerkingum og misrétti gagnvart þeim nemendum sem sækja brennimerktu skólana. Þegar slík aðgreining er komin á er mjög erfitt að snúa til baka og reyna að brjóta það upp.“

Minni eftirspurn eftir börnum sem víkja frá norminu

Berglind segir þekkt að þar sem markaðslögmál ráði för í skólum sé einfaldlega meiri eftirspurn eftir sumum börnum og foreldrum en öðrum. „Það verður eftirspurn eftir hópum sem hafa komið sér vel fyrir í samfélaginu og minni eftirspurn eftir börnum og foreldrum sem talin eru víkja frá norminu eða þeim viðmiðum sem skólarnir eru látnir keppast við að ná.“

Samkvæmt rannsókn Berglindar sem hún vann í bandarísku borgarsamfélagi virðist vera að það þurfi tiltekinn lágmarksfjölda af milli- og efristéttarforeldrum til að skapa eftirspurn og tiltrú á gæði skóla. Þeir móta orðspor skólanna og verða talsmenn ákveðinna menntavörumerkja,“ segir Berglind.

Hún segir að auðvelt sé að innleiða þessa hugsun þar sem skólar eru reknir af hinu opinbera, eins og hér á landi. „Til dæmis með því að skólar marki sér í auknum mæli sterka sérstöðu sem gæti verið nokkurs konar vörumerki eða ímynd.“

Nálgast má rannsókn Dr. Berglindar á vef academia.edu

Birt á mbl.is 06.02.2014 Höfundur: Anna Lilja Þórisdóttir

 

Eini karlkyns leikskólastjórinn

Ísland í dag fylgdist með degi í lífi eina karlkyns leikskólakennarans sem gegnir stöðu leikskólastjóra á Íslandi. 

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVAD51356C-CD82-4CF5-9840-301E7DE255F9
Birtist í Íslandi í dag 07.04.2014 Höfundur Sindri Sindrason

Af hverju er ég leikskólakennari?

Ég var frekar áttavilltur unglingur. Hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór var ekki mikið sem ég spáði í. Sérstaklega eftir að það varð ljóst að ég yrði seint atvinnumaður í knattspyrnu. 

Ég vil reyndar meina það að eina ástæðan fyrir því að ég varð ekki knattspyrnustjarna er sú að ég á afmæli í desember. Rannsóknir hafa sýnt að flestir þeir sem ná árangri í knattspyrnu eru fæddir snemma á árinu. Ég er ekki viss um að fyrrum þjálfarar mínir séu sammála þessari kenningu minni en það er nú önnur saga.

Úr knattspyrnunni lá leið mín í tónlistina og þar fann ég mig vel. Ég stofnaði hljómsveit með vinum mínum og heimsfrægð var á næsta leiti. Rokkið átti vel við mig og við félagarnir þurftum ekkert mikið til að lifa. Bara smá vasapening endrum og sinnum fyrir brauði í föstu og fljótandi formi.

Við vorum á leiðinni út í hinn stóra heim til að „meika“ það. Okkur vantaði bara smá pening fyrir farmiðanum. Mér datt í hug að sækja um starf í leikskóla. Ég var ráðinn. Ég lét alla vita sem vildu að ég ætlaði nú bara að stoppa þarna í nokkra mánuði á meðan ég væri að safna mér fyrir „meikfarmiðanum“.

Leikskólakennari á staðnum sagði mér að hún hefði sagt það sama fyrir 20 árum og líklega færi eins fyrir mér því leikskólakennarastarfið væri skemmtilegasta og mest gefandi starf í heiminum. Mér fannst hún vera klikkuð. Hún hafði hins vegar algjörlega rétt fyrir sér.

Kostaboð

Starfið náði að heilla mig upp úr skónum. Það var svo mikið frelsi. Það var svo mikið af verkefnum. Börnin voru svo skemmtileg. Mest hafði ég gaman af þeim börnum sem þurfti að hafa svolítið fyrir. Þau áttu alltaf sérstakan stað í mínu hjarta. Mér var oft boðið gull og grænir skógar af þessum litlu vinum mínum: „Halli, af hverju kemur þú ekki og gistir heima hjá mér um helgina?“ Sagði einn snillingurinn einu sinni og bætti við: „Þú getur bara sofið á milli mömmu og pabba. Þú mátt borða eins mikið Lucky charms og þú vilt. Svo horfum við bara á teiknimyndir allan morguninn á meðan mamma og pabbi sofa“.

Hvernig er hægt að neita slíku kostaboði?

Sem betur fer tókst mér að hafna tilboðinu án þess að særa þennan vin minn. Mér gekk vel í starfi. Ég fékk hrós og hvatningu frá yfirmanni mínum. Hún leyfði mér að þróast í starfi og leiðbeindi mér inn á réttar brautir.

Eftir fimm ára starf í leikskóla ákvað ég að sækja um í Kennaraháskóla Íslands og fékk inngöngu. Hugsunin um krefjandi háskólanám var vissulega íþyngjandi.

En áhyggjur mínar reyndust óþarfar. Tíminn í „Kennó“ var einn besti tími lífs míns og þótt námið væri oft erfitt og verkefnin í skólanum mörg og krefjandi, gekk mér vel í námi.

Leikskólakennaranám er frábært nám sem sinnt er af alúð bæði í Háskólanum á Akureyri og í Háskóla Íslands. Eftir útskrift hóf ég aftur störf á sama leikskóla og ég starfaði á áður en ég fór í Kennaraháskólann og nú með með meiri ábyrgð sem deildarstjóri. Starfið hélt áfram að veita mér gleði þó ábyrgðin yrði meiri.

Það var frábært að geta nú nýtt sér alla sérfræðiþekkinguna sem maður fékk í náminu til þess að verða fagmaður og auka gæði kennslunnar. Ég á mörgum mikið að þakka sem leiðbeindu mér á réttar brautir. Bæði kennurum, samstarfsmönnum sem og börnum og foreldrum.

Eftir að hafa starfað í leikskóla í 12 ár ákvað ég að bjóða mig fram sem formaður Félags leikskólakennara. Ég vildi reyna að gera gagn á þeim vettvangi. Starf formanns FL er krefjandi og skemmtilegt, en ég sakna alltaf starfsins í leikskólanum. Við val á námi og starfi þarf maður að meta allar hliðar. Kannski ert þú frábært efni í leikskólakennara án þess að hafa hugmynd um það.

Haraldur F. Gíslason

Úr Fréttablaðinu, 25.maí 2013.

Framhaldsskólanemar vanmátu laun leikskólakennara

Nemendur í sjö framhaldsskólum á landinu héldu að meðallaun leikskólakennara væru talsvert lægri en þau í raun eru. Vefkönnun sem lögð var fyrir framhaldsskólanemendur á lokaári um þekkingu þeirra á menntun og starfi leikskólakennara, gefur til kynna að að flestir nemendur vanmeti laun leikskólakennara. Aðeins 10% svarenda höfðu raunhæfar hugmyndir um laun leikskólakennara.

Menntavísindastofnun og Menntavísindasvið Háskóla Íslands framkvæmdi könnunina fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið á vormánuðum í fyrra.

Aðeins 10% svarenda höfðu raunhæfar hugmyndir um laun leikskólakennara.

Nemendur voru spurðir hvað þeir teldu mánaðarlaun leikskólakennara vera há. 159 tóku þátt í könnuninni en alls svöruðu 137 spurningunni. Gefnir voru fimm svarmöguleikar. Enginn þátttakandi giskaði á hæstu tvö launaþrepin, 400.000 til 499.000 krónur á mánuði eða 500.000 kr. eða meira á mánuði.Skjermbilde 2014-03-28 kl. 12.55.52 (2)

Samkvæmt kjarakönnun starfsmannafélags Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012 voru meðalheildarlaun leikskólakennara 324 þúsund á mánuði. Samkvæmt því mætti ætla að rétt svar við þessari spurningu væri 300.000 – 399.000 kr á mánuði sem aðeins 10% þátttakendanna merktu við. Mætti því ætla að margir þátttakendur í könnuninni gerðu ráð fyrir enn lægri launum þessarar starfsstéttar en raunin er í dag.

Niðurstöðurnar gætu verið vísbending um ástæður þess að fáir nemendur á lokaári í framhaldsskólum hafi áhuga á að fara í nám í leikskólakennarafræðum.

 

 

Öðlaðist sjálfstraust með námi

Egill Óskarsson

Nýttu þínar sterkustu hliðar

Fyrir níu árum síðan hóf ég störf á leikskólanum Fögrubrekku í Kópavogi. Ég var 22 ára gamall og hafði eins og gengur og gerist brasað við hitt og þetta í gegnum tíðina; unnið á afgreiðslukassa, selt raftæki, borið út póst, gengið í skóla og jú, ég hafði unnið áður á leikskóla í stuttan tíma. Þegar ég gekk í fyrsta skipti inn á Fögrubrekku var það ansi fjarri huga mér að níu árum síðar yrði ég ennþá starfandi þar og orðin leikskólakennari og deildarstjóri.

Þegar ég gekk í fyrsta skipti inn á Fögrubrekku var það ansi fjarri huga mér að níu árum síðar yrði ég ennþá starfandi þar

Ég hafði aldrei hugleitt það að læra að verða leikskólakennari, eða yfir höfuð að leggja fyrir mig neitt sem tengdist kennslu og umönnun barna. Ég leit fyrst og fremst á leikskólann sem skemmtilegan vinnustað á meðan að ég væri að átta mig á því hvenær ég yrði eiginlega stór og hvað ég vildi verða þegar það gerðist. En smátt og smátt fór ég að átta mig á því hvað leikskólinn er spennandi vettvangur og hversu mikil tækifæri hann gefur einstaklingum til þess að nýta sterkar hliðar sínar í starfi.

Það er sama hvort maður hefur áhuga á jarðfræði, tónlist, prjónaskap, ljósmyndun eða bara hverju sem er, það er hægt að nýta þann áhuga og þá þekkingu sem maður hefur í starfinu með börnunum. Möguleikarnir til þess afmarkast í raun aðallega af hugmyndaflugi manns sjálfs og barnanna.

Starfið er  líka gríðarlega fjölbreytt. Viðfangsefnin eru af öllum toga. Þegar ég hóf störf á Fögrubrekku voru elstu börnin nýbúin að smíða flugvél úr trjágrein og ýmsum efnivið sem þau höfðu fundið. Við höfum fengið fiska og önnur nýveidd sjávardýr til þess að skoða með áhugasömum börnum. Við förum og skoðum söfn, gefum öndum brauð og förum á tónleika. Og þegar maður umgengst stóran hóp af börnum á hverjum degi er sífellt eitthvað nýtt að koma upp í samskiptum bæði á milli barna og fullorðinna og á milli barnanna sjálfra.

Samskiptin við börnin eru auðvitað eitt það allra skemmtilegasta við starf leikskólakennara. Leikskólabörn eru fróðleiksfús og sífellt að kanna og prófa heiminn í kringum sig. Þau kanna heiminn í rauninni með tilraunum eins og vísindamenn. Og gleðin sem fylgir því að fylgjast með barni sem áttar sig á einhverju nýju og skemmtilegu eða uppgötvar einhverja áður óþekkta hæfni er sennilega með því magnaðasta sem hægt er að upplifa í starfi.

Fagheimurinn í leikskólanum er líka spennandi. Uppeldis- og menntunarfræði eru greinar í sífelldri þróun og inn í þær spinnast raun-, hug- og félagsvísindi. Faglegt starf á íslenskum leikskólum er almennt til fyrirmyndar og var það eitt af því sem hreif mig mest þegar ég hóf störf á leikskóla fyrir níu árum. Þá var t.d. þróunarverkefni um tónlist í leikskólum nýlokið þar sem ég starfaði og vinna við annað, þar sem fimm ára börn saumuðu bútasaumsteppi og kjól í fullri stærð, í fullum gangi.

Mér finnst ég mjög heppinn að hafa ratað inn á leikskóla fyrir níu árum síðan. Ég nýt þess að verja hverjum virkum degi með hópi af börnum og að læra og leika mér með þeim. Að geta nýtt mér mínar sterku hliðar í fjölbreyttu og áhugaverðu starfi. Starfið getur auðvitað verið krefjandi líka en það jákvæða og gefandi vegur miklu þyngra þegar upp er staðið. Ég myndi hiklaust mæla með leikskólastörfum og leikskólakennaranáminu.

Egill Óskarsson leikskólakennari og deildarstjóri á leikskólanum Fögrubrekku

Hvernig standa leikskólarnir sig?

Í reglugerð um starfsemi leikskólanr. 225/1995 segir að hver leikskóli skuli móta aðferðir til að meta uppeldisstarf, stjórnunarhætti og samskipti innan leikskólans og utan. Matið er gert með hliðsjón af lögum, reglugerð og aðalnámskrá leikskóla.

Mati á leikskólastarfi er skipt í innra og ytra mat. Með innra mati er átt við sjálfsmat og skal það framkvæmt af starfsmönnum hans, en með ytra mati er átt við úttekt á starfsemi leikskólans sem gerð er af utanaðkomandi aðila.

Leikskólinn er fullur af fróðleik

Leikskólinn er í stöðugri þróun